Áfram KR!

Varð vitni að þessum frábæra leik áðan. Keflavík byrjaði vel, settu niður skot og menn bjuggu sig undir afar taugastrekkjandi leik. KR tók sig þó hressilega á eftir því sem á leið og var 9 stigum yfir í hálfleik. Í seinni var þetta bara ein, bein leið. Gríðarlega flottur sigur hjá KR og gefur tóninn fyrir seríuna.

Þetta er bara svona: Þeir sem mæta vestur í bæ og ætla að vinna KR - þeir tapa.


mbl.is KR vann fyrsta leikinn gegn Keflavík 102:74
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vítaverð kaldhæðni

Þessi vaxtalækkun er grín - það þarf ekki að ræða það. Hún breytir nákvæmlega engu um aðstæður heimila og fyrirtækja í landinu. En þetta er auðvitað frábært fyrir "ríkisstjórnina" - búið að flæma Davíð burt, allir himinlifandi og nú getur "ríkisstjórnin" bara skýlt sér á bakvið peningastefnunefndina.

Skjaldborg um heimilin er frábært slagorð. Hins vegar hefur ríkisstjórnin ekkert gert í átt til þess að reisa hina umræddu skjaldborg. Hvers vegna tekur svona langan tíma að ákveða hvernig á að leysa vanda þeirra sem ekki ráða lengur við greiðslubyrði af fasteignalánum?  Hvenær á að koma með sannfærandi aðgerðir gegn atvinnuleysi sem felast ekki í því að búa til verkamannastörf? Hvernig á að hjálpa fyrirtækjum landsins að komast í gegnum þetta án þess að þau fari á höfuðið í hrönnum?

Á meðan "ríkisstjórn" Íslands hefur gert ekkert hafa önnur lönd verið að stíga sífellt stærri skref til þess að hjálpa einstaklingum og fyrirtækjum. Bandaríkjastjórn hefur lagt fyrirtækjum til tugi þúsunda milljarða og það þurfti ekki að eyða dögum og vikum í að ræða það. Menn vita að það kemur ekkert annað til greina en að gera allt til þess að halda atvinnulífinu gangandi.

Núverandi "ríkisstjórn" var greinilega svo óánægð með hina fyrri að upp úr samstarfinu slitnaði, en í tíð hennar hefur samt ennþá ekkert gerst. Það töpuðust 5.000 hálaunastörf á einu bretti í bankahruninu. Nokkur þúsund heimili ramba á barmi gjaldþrots og líklega nokkur hundruð fyrirtæki. Atvinnuleysi eykst stöðugt, hraðar en menn gerðu ráð fyrir og við horfum fram á samdrátt í landsframleiðslu. Hin nýja "ríkisstjórn" hefur ekkert gert nema komið með nokkur góð slagorð.

Eða jú bíddu, alveg rétt, Davíð Oddsson er ekki lengur Seðlabankastjóri.


mbl.is Stýrivextir lækkaðir í 17%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er nú meiri vitleysan

Ég var næstum því búinn að kalla þessu færslu "Helvítis fokking fokk" en líklega hefði það gengið of langt. Í einfeldni minni hélt ég að Sjálfstæðismenn hefðu áhuga á endurnýjun á framboðslistum, en það var greinilega misskilningur. Sjö sitjandi þingmenn í framboði skipa sjö efstu sætin. Reyndar fylgir gott fólk sem ég studdi, Erla Ósk og Þórlindur, í næstu tveimur sætunum þar á eftir en ég hefði viljað sjá miklu meiri endurnýjun.

Á þessum tímapunkti þurfum við öflugt fólk með ferskar hugmyndir - nýtt blóð á vígvöllinn eins og það var skemmtilega orðað hjá Þórlindi og Erlu. Við þurfum ekki sama gamla liðið eða góðærisstjórnmálamennina með sömu gömlu hugmyndirnar. Þetta á ekki bara við um Sjálfstæðisflokkinn heldur við alla flokka og öll kjördæmi.

Niðurstöður flestra prófkjöranna hingað til sýna glöggt að vilji þeirra sem skráðir eru í stjórnmálaflokka er sá að mannaflinn á Alþingi haldist nánast óbreyttur. Jóhanna Sigurðardóttir fékk yfirgnæfandi stuðning í 1. sæti hjá Samfylkingunni og þakkaði hann kærlega þrátt fyrir að hafa verið í stjórnmálum í 30 ár. Þrjátíu ár. Það á enginn að vera í stjórnmálum í 30 ár. En það virðist vera að fólk sem tekur virkan þátt í stjórnmálastarfi telji reynslu af setu á Alþingi skila góðum þingmönnum.

Þetta minnir ískyggilega á sögu sem ég heyrði einu sinni um nokkra apa í búri. Það er kannski ágætis samlíking þegar öllu er á botninn hvolft.


mbl.is Illugi sigraði í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel gert Þórlindur

Það er ljóst að nýtt blóð þarf í Sjálfstæðisflokkinn fyrir komandi kosningar og hver er þá betri en Þórlindur? Hann hef ég þekkt lengi, unnið með honum á ýmsum vettvangi og alltaf líkað vel. Þórlindur hefur þann kraft og vilja sem þarf til þess að ná árangri í því sem hann tekur sér fyrir hendur og þingmennska ætti því ekki að vefjast fyrir honum.

Þórlind á þing!


mbl.is Þórlindur óskar eftir 4. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurupptaka

Lítur út fyrir að það sé kominn tími til að endurvekja ritlingavettvang þennan - margt í gangi og ýmislegt í vændum sem ástæða er til að hafa skoðanir á og hrópa þær af húsþökum.

Hvenær er komið nóg?

Ég fór Reykjanesbrautina inn í bæ í morgun eins og aðra morgna og stuttu eftir Grindavíkurafleggjarann sá ég röð að byrja að myndast við Vogaafleggjara - enn eitt slysið á sama stað. Við máttum sitja þarna í 40 mínútur, sem skipti þó engu máli, því þarna voru tveir bílar í rúst og lítur út fyrir að margir séu slasaðir. Enn eitt stórslysið og öllum virðist vera sama - a.m.k. þeim sem fara með þennan málaflokk hjá ríkinu.

Framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar hafa verið á hold alltof lengi, vegna þess að verktakinn sem stóð að þeim fór á hausinn. Formsatriði hjá ríkinu valda því að framkvæmdirnar hafa ekki hreyfst í það minnsta frá því vel fyrir jól, en nú gengur þetta ekki lengur. Það þarf að ljúka tvöföldun brautarinnar strax, áður en fleiri slys eiga sér stað. Það skiptir meira máli en formsatriði við framkvæmd annars útboðs.


mbl.is Reykjanesbraut lokuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eru stimpilgjöld?

Spratt upp umræða um stimpilgjöld í vinnunni í dag - óskiljanleg gjöld með öllu. Þetta eru leifar frá gamalli tíð sem gegna því eina hlutverki að bægja fólki frá of mikilli lántöku. Að þurfa að greiða 1,5% af upphæð láns til ríkisins, fyrir það eitt að fá lánið, er ekkert annað en stýring af hálfu ríkisins.

Það er eiginlega ótrúlegt að þessi gjöld hafi ekki verið afnumin í valdatíð Sjálfstæðisflokksins - þetta hefði átt að vera eitt af fyrstu verkum hans árið 1991. Hins vegar er þetta víst núna í stjórnarsáttmálanum og það verður mjög áhugavert að fylgjast með því hvort staðið verður við loforð um að afnema stimpilgjaldið. Það á ekki að bíða með það eða gera það þegar Sjálfstæðisflokknum hentar - bara núna og það strax.


Darraðadans, glundroði og óöld

Lýsingarorðin sem nýr og verri R-listi hefur notað til þess að lýsa ástandinu í Sjálfstæðisflokknum undanfarna daga eru ótrúleg - sjaldan hefur maður heyrt jafnmörg gífuryrði á jafnstuttum tíma og í Kastljósinu í gær. Hið augljósa er samt að nýi meirihlutinn er bara helvíti ánægður með sig, án þess að hafa hugmynd um hvað hann ætlar að gera í hitamálinu sem sprengdi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Er ekki augljóst að hið opinbera á ekki að standa í áhættusömum rekstri þar sem brugðið getur til beggja vona? Auðvitað er alveg líklegt að borgin muni græða reiðinnar býsn á því að halda hlut Orkuveitunnar í REI þegar fram í sækir, en hugsanlega fer þetta sömu leið og Lína.net og rækjuvinnslan góða forðum. Milljarðar almannafjár töpuðust þar á frekar einfaldan hátt og nú ætlar nýr meirihluti greinilega að gera sitt besta til þess að eiga hættu á því aftur.

Það segir líklega meira en mörg orð um meirihlutasamstarfið að hægt var að slíta því og stofna til nýs samstarfs við fyrrverandi minnihluta á korteri. En hugsanlega reyndar segir það allt um hinn óheiðarlega og tækifærissinnaða Björn Inga Hrafnsson, sem virðist hafa völdin ein að markmiði á sama tíma og hann er algjörlega óhæfur til þess að stjórna einu eða neinu. Nú þekki ég manninn ekkert, en svona kemur hann fyrir sjónir í fjölmiðlaumfjölluninni og það er varla gott.

En þegar öllu er á botninn hvolft verða Sjálfstæðismenn auðvitað að sætta sig við að þeir gerðu mistök í upphafi í því að fara í samstarf við Framsóknarflokkinn. Ákvörðun um að halda ekki áfram ríkisstjórnarsamstarfinu var góð á sínum tíma og er það enn. Það var greinilega alltof auðvelt fyrir frammarana að skríða aftur uppí til sammarana og hinna félaganna. Eini ljósi punkturinn er kannski sá að Margrét Sverrisdóttir getur látið til sín taka. Sem fyrr treysti ég henni vel til góðra verka og vona að hún nýti þetta tækifæri.


Jóhannes í Bónus er snillingur

Heilsíðuauglýsingarnar hans í Mogganum og Fréttablaðinu í dag eru rosalegar - með því besta sem sést hefur í íslenskum fjölmiðlum. Óskandi væri að fleiri tækju sig til og gerðu slíkt hið sama, það þarf sannarlega að benda sumum stjórnmálamönnum á að þeir hafa gengið of langt og ekki síður minna á að menn eigi að þekkja sinn vitjunartíma.

Má ég ekki bara horfa á sjónvarpið í friði?

Hef haft aðgang að Skjánum, sjónvarpsþjónustu Símans, í svona þrjár vikur núna. Hef líklega fimm sinnum á þessum tíma lent í því að myndlykillinn nái ekki sambandi við þjónustuna. Hvað er málið? Er virkilega svona erfitt að fá þetta til að virka.

Þegar ég var yngri var þetta þannig að það var ein fjarstýring, maður notaði hana til að kveikja og slökkva á sjónvarpinu og hækka og lækka. Sjónvarpið náði alltaf "sambandi við þjónustu" og þetta var óskaplega einfalt. Ekki er svo að skilja að mig langi aftur að hafa bara eina stöð eða að mig langi ekki til þess að geta leigt vídeómynd gegnum sjónvarpið, en það væri óskandi að þjónustan virkaði.

Ekki þarf að líta lengri en vestur um haf til heimsveldis sjónvarpsins í Bandaríkjunum og finna þar ágæta lausn á málunum. Það hefur verið hægt að fá sjónvarp í gegnum kapal í USA frá árinu 1949 (http://en.wikipedia.org/wiki/Cable_television_in_the_United_States) og sjónvarpið nær alltaf sambandi þar.

Bandaríkjamenn hafa einmitt gætt sín á því að hugsa um framtíðina varðandi svona "infrastructure" hluti - t.d. vegi, byggingar og jú, sjónvörp. Við Íslendingar gætum vissulega lært margt af þeim í þessum efnum, einmitt núna til dæmis þegar fyrir liggur að tvöfalda Suðurlandsveg, sem átti auðvitað að vera tvöfaldur frá upphafi. Sömuleiðis þarf víst að tvöfalda Hvalfjarðargöngin þrátt fyrir að þau séu ekki orðin 10 ára. Íslendingar hafa lengi verið snillingar í skammsýni.

En hvað sem öðru líður, þá vil ég bara geta horft á sjónvarpið án þess að sjá "myndlykill nær ekki sambandi við þjónustu."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband