Hvenær ætlarðu að hætta?

Stjórnmálin þessa dagana minna ískyggilega á gamlan skets af fyrsta disknum sem Tvíhöfði gaf út. Jón Gnarr öskrar á Sigurjón, sem hafði laumast inn á almenningssalerni án þess að greiða: "Hvenær ætlarðu að hætta, að skíta á kostnað skattborgara!?!"

Það er viðeigandi að spyrja núverandi ráðamenn svipaðrar spurningar. Í því tilviki er þó land og þjóð postulínsskálin, við sitjum í skítnum þeirra en þurfum jafnframt að borga brúsann. Frekar harkalegt svo ekki sé meira sagt.

Núverandi ríkisstjórn komst til valda í krafti "byltingar" og ætlaði að breyta öllu og hreinsa til eftir fyrri ríkisstjórn, sem annar núverandi ríkisstjórnarflokkanna sat þó í. Skjaldborg um heimilin, gagnsæ stjórnsýsla og fleiri hressandi slagorð virðast lítið annað en orðin tóm.

Nú virðist önnur bylting í bígerð en ráðamenn kippa sér lítið upp við það. Ákærur á hendur fyrrum ráðherra leiða nánast til handalögmála á Alþingi en alltaf skulu menn bugta sig og beygja til þess að halda lífi í "vinstri" stjórninni.

Það verður að nota vinstri í gæsalöppum í þessu samhengi. Velferðarstjórnin sjálf hefur lítið gert annað en að auka á erfiðleika þeirra sem áttu erfitt fyrir og reyna að draga hina í svaðið. Ég veit ekki hvers vegna en það virðist innbyggt í jafnaðarhugtakið að allir hafi það jafnslæmt og hinir, í stað þess að hafa það jafngott.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband