Óskandi að satt væri

Í gær sagði forsætisráðherra að vandi ríkis og sveitarfélaga væri meiri en áætlað var. Í dag er vandi heimilanna minni en áætlað var. Einmitt. Gæti verið að forsætisráðherra sé að finna sér afsökun fyrir því að hækka skatta eða leggja á annan hátt þyngri byrðar á heimilin?

Hvað þýðir það líka að skuldavandi heimilanna sé ekki eins skelfilegur og margir hafi viljað láta í veðri vaka. Þetta er ekki að neinu leyti ásættanlegt orðalag af hálfu forsætisráðherra því þarna er án efa um að ræða heildartölur um eignir vs. skuldir.

Slíkar heildartölur eru fjarri því að segja alla söguna því tekjur og gjöld heimilanna hafa breyst svo um munar. Mikil verðbólga, seinkun launahækkana og aukið atvinnuleysi ásamt hærri afborgunum skulda vegna verðbólgu eða bágrar stöðu krónunnar eru ástæður þess að heimilin ráða við mun lægri skuldir en áður.

Forsætisráðherra hefur því engar forsendur til þess að meta heildarstöðu heimilanna út frá skuldunum einum, því þar þyrfti að koma til mat á tekjum og gjöldum og það er alveg ljóst að heimilin hafa mun minna milli handanna til þess að greiða af fasteignalánum en fyrir hrun.


mbl.is Skuldavandinn minni en talið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elfur Logadóttir

Nei Davíð, vandinn er ekki minni en áætlað var, vandinn er sagður minni en aðrir hafa haldið fram að hann sé - áætlanir eru að standast, skv. orðum forsætisráðherra. Ég veit að þú gerir þér grein fyrir þeim muni sem er á milli þessara tveggja merkinga.

Seðlabankinn hefur upplýsingar um eignir, skuldir, tekjur og gjöld heimilanna og ætti því að geta reiknað nokkuð nákvæma útkomu.

Væntanlega mun Seðlabankinn birta þessar tölur þegar úrvinnslu þeirra er lokið og þá sjáum við hvernig í pottinn er búið.

Elfur Logadóttir, 3.6.2009 kl. 21:00

2 Smámynd: Davíð Gunnarsson

OK, sanngjörn athugasemd :)

En heldurðu í alvörunni að svona tölur verði birtar? Ég er spenntur að sjá ef af verður - mér þykir upplýsingagjöf ríkisstjórnarinnar ekki til fyrirmyndar fram að þessu, en Seðlabankinn kannski stendur sig betur.

Davíð Gunnarsson, 4.6.2009 kl. 11:46

3 Smámynd: Elfur Logadóttir

Já ég hef fulla trú á því að tölurnar verði birtar. Seðlabankinn hefur þegar birt tvær greinargerðir þar sem sýnt er fram á nokkra úrvinnslu þessara gagna og þá var boðað að sækja ætti frekari gögn til þess að geta gert betri og heildstæðari mynd. Þessar greinargerðir eru aðgengilegar á vef Seðlabankans, sú fyrri er frá 11. mars 2009 og sú síðari ca. lok mars eða einhvern tíma í apríl - skoðaðu fréttasafnið og þá finnurðu þær.

Eins held ég að upplýsingagjöf ríkisstjórnarinnar sé vanmetin. Hefurðu skoðað Ísland.is? Þar er gríðarlega mikið af upplýsingum um það sem gert hefur verið og það sem gera á, hvernig sækja eigi frekari upplýsingar, hvert leita eigi eftir aðstoð og margt fleira.

Elfur Logadóttir, 4.6.2009 kl. 15:26

4 Smámynd: Davíð Gunnarsson

Ég vil ekki vera 'I told you so' gaurinn, en mér þótti skemmtilegt að hugsa um þetta blogg og þessi komment þín þegar í ljós kom um daginn að skýrsla Seðlabankans var bara tóm vitleysa.

Þegar maður reiknar skuldastöðu heimilanna í landinu og sleppir þeim lánum sem eru fryst, þar sem eiginfjárstaðan er nánast örugglega neikvæð í öllum tilvikum, þá er maður bara hálfviti :)

Davíð Gunnarsson, 20.6.2009 kl. 10:55

5 Smámynd: Elfur Logadóttir

Bíddu, er það komið í ljós að frystum lánum hafi verið sleppt? Að öllu? að hluta? Úr hvaða útreikningum? Ég hef alveg misst af þessu. Do tell (með vísun í heimildir takk :))

Sá einmitt þvert á móti frétt í gær sem vísaði í rit fjármálaeftirlitsins sem útskýrði hvers vegna 70+ þúsund væru í grunni Seðlabankans á meðan ca 100þ heimili væru skráð fyrir húsnæði, eða hvernig sem það var orðað.

Best að fara að leita að fréttinni, eða jafnvel frumheimildinni.

Elfur Logadóttir, 20.6.2009 kl. 12:11

6 Smámynd: Elfur Logadóttir

annars máttu alveg vera 'I told you so' því ég vil vita sannleikann, ekki spunann.

Elfur Logadóttir, 20.6.2009 kl. 12:12

7 Smámynd: Davíð Gunnarsson

Man ekki hvar ég sá þetta fyrst, sennilega í viðtali við Þorvarð Tjörva, starfsmann SÍ í sjónvarpinu, en til dæmis má lesa eitthvað hér: http://www.dv.is/frettir/2009/6/22/bankarnir-eignast-heimilin/.

Ástæðan fyrir muninum á 100 og 70 þús. er að þessi 30 þús. heimili sem í milli eru, eru með óveðsettar fasteignir - sem er auðvitað frábært og til vitnis um það hversu rík við vorum.

Svo er þetta tilvitnun í Jóhönnu úr ræðustól Alþingis: „Þessar nýju upplýsingar frá seðlabankanum sýna hins vegar svart á hvítu að skuldavandi heimilanna er ekki eins skelfilegur og málshefjandi hér í dag [Sigmundur Davíð Gunnlaugsson] og ýmsir aðrir vilja láta í veðri vaka."

Davíð Gunnarsson, 23.6.2009 kl. 10:42

8 Smámynd: Elfur Logadóttir

Ok, en ef við lesum hlutlaust í orðin: "tekur ekki mið af frystingu" þá getur það allt eins þýtt að greiðslubyrði sumra sé betri en Seðlabankinn reiknar, því þeir eru með frystingu sem ekki er tekið mið af.

Það sem þarf að fá svör við er einmitt hvort menn reikna greiðslubyrðina hjá seðlabankanum út frá útgáfudegi og öðrum stofnupplýsingum lána (sem er ekki ólíklegt því það er miklu einfaldara), eða hvort þeir fá upplýsingar um gjalddagann frá lánveitendunum eins og þeir hafa reiknað þá á hverjum tíma (sem mér finnst ólíklegra því það eru erfiðari útreikningar). Fyrri aðferðin tekur þá ekki mið af frystingu en frystingin kemur þá til bætingar á greiðslustöðu greiðanda fremur en að gera hana verri.

Eins og áður þá set ég samt þann fyrir vara að fá að vita aðferðarfræðina frá þeim aðila sem reiknar fremur en að stökkva á mögulegar niðurstöður byggðar á ófullkomnum upplýsingum. Hafi menn upplýsingar um reiknaða gjalddaga (seinni aðferðin sem ég nefni ofar) og geri ekki ráð fyrir að þeir séu of lágir vegna frystingar þá er það vissulega erfitt og jafnvel verulega ámælisvert, en ég felli ekki dóminn um það fyrr en þær upplýsingar fást staðfestar hjá skýrslugerðarmönnum.

Elfur Logadóttir, 23.6.2009 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband