Vinstristjórn í vor?

Það eru víst kosningar til Alþingis í vor og því vel þess virði að velta framtíðinni fyrir sér. Landslag stjórnmálanna verður líklega allt öðruvísi - Samfylking orðin 20% og Framsóknarflokkurinn ekki lengur til. Aldrei að vita þó hvað menn draga upp úr höttum sínum í kosningabarátunni.

Tilhugsunin um hugsanlega vinstristjórn í vor er sérlega óskemmtileg, svo ekki sé meira sagt. Miðað við hvernig stjórnarandstaðan talar, sérstaklega um ofurlaun tekjuhárra Íslendinga og mikinn hagnað bankanna. Einnig hljóma nýleg orð formanns Samfylkingarinnar ekki vel þegar hún talar um að stefna flokksins sé fyrst og fremst að kæla hagkerfið með frestun allra stórframkvæmda á vegum ríkisins (reyndar ágætis umfjöllun um þessi mál og fleiri í pistli Benedikts Jóhannessonar).

Samfylkingin virðist gera ráð fyrir því að vera í forystu vinstristjórnar og í ljósi þess væri ágætt ef flokkurinn myndi skýra stefnu sína í þessum helstu málaflokkum sem varða framtíð þjóðarinnar. Þarna er auðvitað átt við málefni varðandi evruna og inngöngu í Evrópusambandið. Ég held eiginlega að forysta flokksins skilji ekki alveg um hvað málið, né heldur áttar hún sig á vilja þjóðarinnar og getur því auðvitað ekki tekið ákvörðun.

Líklega yrði vinstristjórn til þess að stóru fyrirtækin sem skila ríkinu gríðarlegum skatttekjum myndu hverfa úr landi. Einnig myndi fólk sem greiðir mikinn fjármagnstekjuskatt flytja eignarhaldsfélög út fyrir landsteinana, í það minnsta ef marka má orð sem fallið hafa um of lágan skatt á fyrirtæki og of lágan fjármagnstekjuskatt. Hvers vegna þarf að amast við þeim einstaklingum sem vinna við eigin fjárfestingar og hafa því ekki skattskyldar tekjur aðrar en fjármagnstekjur?

Gera má ráð fyrir því að skattar myndu hækka, einkum á þá tekjuhæstu og að útgjöld ríkisins myndu aukast til muna sem myndi leiða til halla á ríkissjóði. Slíkur halli kemur hagkerfinu illa á ýmsan hátt og myndu aukin útgjöld ekki vera til þess að kæla hagkerfið, þrátt fyrir að hærra skattar gætu auðveldlega ofkælt það snögglega.

Þetta er eiginlega of langt mál í eina færslu og því líklega tilefni til áframhaldandi skrifa á næstunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband