Darraðadans, glundroði og óöld

Lýsingarorðin sem nýr og verri R-listi hefur notað til þess að lýsa ástandinu í Sjálfstæðisflokknum undanfarna daga eru ótrúleg - sjaldan hefur maður heyrt jafnmörg gífuryrði á jafnstuttum tíma og í Kastljósinu í gær. Hið augljósa er samt að nýi meirihlutinn er bara helvíti ánægður með sig, án þess að hafa hugmynd um hvað hann ætlar að gera í hitamálinu sem sprengdi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Er ekki augljóst að hið opinbera á ekki að standa í áhættusömum rekstri þar sem brugðið getur til beggja vona? Auðvitað er alveg líklegt að borgin muni græða reiðinnar býsn á því að halda hlut Orkuveitunnar í REI þegar fram í sækir, en hugsanlega fer þetta sömu leið og Lína.net og rækjuvinnslan góða forðum. Milljarðar almannafjár töpuðust þar á frekar einfaldan hátt og nú ætlar nýr meirihluti greinilega að gera sitt besta til þess að eiga hættu á því aftur.

Það segir líklega meira en mörg orð um meirihlutasamstarfið að hægt var að slíta því og stofna til nýs samstarfs við fyrrverandi minnihluta á korteri. En hugsanlega reyndar segir það allt um hinn óheiðarlega og tækifærissinnaða Björn Inga Hrafnsson, sem virðist hafa völdin ein að markmiði á sama tíma og hann er algjörlega óhæfur til þess að stjórna einu eða neinu. Nú þekki ég manninn ekkert, en svona kemur hann fyrir sjónir í fjölmiðlaumfjölluninni og það er varla gott.

En þegar öllu er á botninn hvolft verða Sjálfstæðismenn auðvitað að sætta sig við að þeir gerðu mistök í upphafi í því að fara í samstarf við Framsóknarflokkinn. Ákvörðun um að halda ekki áfram ríkisstjórnarsamstarfinu var góð á sínum tíma og er það enn. Það var greinilega alltof auðvelt fyrir frammarana að skríða aftur uppí til sammarana og hinna félaganna. Eini ljósi punkturinn er kannski sá að Margrét Sverrisdóttir getur látið til sín taka. Sem fyrr treysti ég henni vel til góðra verka og vona að hún nýti þetta tækifæri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband