Vangæf Vinnumálastofnun

Ég varð fyrir því óláni að þurfa að eiga samskipti við Vinnumálastofnun um daginn og ég vona að það gerist aldrei aftur. Ekki vegna þess að ég var atvinnulaus - var það í þrjá mánuði og það var ekki eins slæmt og ég bjóst við. Það sem helst skyggði á þann tíma var Vinnumálastofnun - sem ég hafði í einfeldni minni haldið að yrði stoð mín og stytta í atvinnuleysinu.

Í fyrsta lagi mátti ég náttúrulega ekki koma nálægt þeim, varla hringja, fyrr en ég var búinn að fá síðasta launatékkann á uppsagnarfrestinum í gömlu vinnunni. Það þótti mér ekki skynsamlegt, því þar sem flestir frá greidd laun mánaðarlega þá myndast gríðarlegt álag hjá Vinnumálastofnun um hver mánaðamót. Þeir myndu gera betur með því að dreifa álaginu og sömuleiðis ætti maður að geta sótt um hvenær sem maður vildi en tiltaka einfaldlega þann dag sem bætur ættu að taka gildi.

Ferlið við að komast á skrá hjá Vinnumálastofnun og sækja um bætur er frekar einfalt. Maður fyllir út eyðublað í nokkrum skrefum á netinu og skilar fylgiskjölum. Og já alveg rétt, þeir minnast reyndar ekki sérstaklega á það í ferlinu en eina leiðin til þess að gera umsóknina á netinu löglega er að mæta á svæðið og fylla út og skrifa undir skjal þess efnis að maður sé atvinnulaus. Á pappír. Sem maður var að gera á netinu. Hvað verður um skjalið? "Það fer hérna í möppu." Já einmitt. Velkomin á 21. öldina.

Í þriðja lagi þurfa allir sem sækja um bætur að staðfesta atvinnuleit mánaðarlega, sem er sniðugt. Enginn ætti að vera áskrifandi að bótunum án smá erfiðis í hverjum mánuði. Svo þurfa allir að sækja einn fund - það er skylda. Það er ekki hægt að fá atvinnuleysisbætur án þess að sækja þennan fund. Ég var í Vinnumálastofnun í byrjun mars - næsti fundur? 23. maí. Einmitt, takk fyrir það. Ég ligg þá bara í rúminu fram að því.

Fjórði punkturinn - vá þetta er meira en ég hélt - er sá að opnunartími Vinnumálastofnunar er frá 9 - 15, mánudaga til fimmtudaga og frá 9 - 12 á föstudögum. Hvað er starfsfólk Vinnumálastofnunar að gera restina af tímanum sem venjulegt fólk er í vinnunni? Aftur, væri ekki betra að dreifa álaginu til þess að bæta þjónustuna. OK, ekki hafa opið nema í 27 tíma á viku, en hvernig væri að svara í símann frá 8 - 18 til dæmis. Það hafa aldrei verið fleiri atvinnulausir í Íslandssögunni og það datt engum í hug lengja jafnvel opnunartíma Vinnumálastofnunar tímabundið. Nei ég skil það vel, þetta er bara atvinnulaust fólk sem hefur ekkert annað að gera en bíða í símanum eða á skrifstofu Vinnumálastofnunar. Einmitt.

Síðast en ekki síst hringdi ég og vildi fá skjal til að staðfesta atvinnuleit mína svo ég gæti farið með það til Lýsingar og fengið að greiða bara vexti af bílaláninu mínu. "Já, þú þarft að koma hérna niður eftir og sækja það." Já ok, ekki hægt að senda á faxi? Nei, það er ekki gert þannig. Já auðvitað, það er ekki nema árið 2009, allir með rafrænt auðkenni gegnum netbanka og það er ekki eins og ég væri að biðja um eitthvað flippað eins og að fá skjalið sent í tölvupósti. Ég hélt að Vinnumálastofnun myndi ráða við faxið. Nei, það er ekki gert þannig.

Með textanum hér að ofan er ekki ætlað að henda gaman að atvinnuleysi, atvinnulausum eða kasta rýrð á mikilvægi atvinnuleysisbóta - þær mættu meira að segja vera hærri. Jafnframt, held ég að Vinnumálastofnun mætti vera betri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband