Loksins get ég sofið rólegur

Frábært að vita að borgaryfirvöld eru með forgangsatriðin á hreinu. Salernisaðstaðan í miðborginni er náttúrulega ævarandi hitamál sem ég hef lengi haft miklar áhyggjur af. En það er afskaplega ánægjulegt að heyra að starfshópur hafi verið skipaður til þess að skoða framtíðarlausnir í almenningssalernum borgarinnar.

Maður verður eiginlega bara hræddur þegar maður les svona fréttir, sérstaklega þegar ætlunin virðist vera að setja svona nútímalega salernisturna - salernissjálfsala - út um allt. Ég hef ekki verið svo lánsamur að reyna svona tæki en las e-n tímann leiðbeiningarnar og skil eftir það ekki hvernig mönnum dettur í hug að halda úti svona sjálfsölum. Ég held að sjálfssalar ættu eingöngu að vera þannig að maður setji peninga í og fái eitthvað út - ekki þannig að maður setji peninga í skilji eitthvað eftir.

En það sem er líklega skuggalegast við þetta allt saman er að rekstur almenningssalerna kostar um 25 milljónir á ári og auk skipunar starfshópsins var í fyrra gerð úttekt á salernisaðstöðunni að beiðni Framkvæmdasviðs borgarinnar á síðasta ári.

Ekki gott að segja hvað það kostar þegar allt er talið og eflaust eru þetta þarfaþing. En væri ekki nóg að einhver sniðugur starfsmaður borgarinnar tæki ákvörðun um hvernig þetta ætti að vera, kæmi því í framkvæmd og kannski athugaði hvort ekki væri hægt að lækka árlegan kostnað um eins og 24 milljónir.

En samt, ég veit ekki hvort þetta er góð tillaga hjá mér - er að velta fyrir mér að skipa starfshóp til að skoða alla möguleika í stöðunni.


mbl.is Almenningssalerni í miðborginni til skoðunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var þá aldrei

Merkilegt hvað menn eru stundum lengi að finna upp hjólið. Akureyringar eru þó í það minnsta búnir að átta sig á því að almenningssamgöngur eru einfaldlega útgjöld fyrir hið opinbera - hvort sem því líkar betur eða verr. Þá er einmitt skynsamlegt að hafa þær ókeypis eða rukka lágmarksgjald til þess að þær þjóni tilgangi sínum og flytji sem flest fólk fyrst þær eru til staðar á annað borð. Annað hvort það er leggja þær niður.

Yfirvöld í Reykjavík virðast seint ætla að átta sig á þessu, hvort heldur er R-listi eða D-listi við völd. Illa gengur að reka almenningssamgöngur í Reykjavík, fáir nýta sér þær og þess vegna er borgin að drukkna í bílum. Er hugsanlegt að þetta sé vegna þess að stakt fargjald í strætó kostar 280 krónur? Ekki nóg með það heldur er hækkun á næsta leyti.

Þegar ég tók strætó fyrst 10 ára kostaði 15 krónur í strætó. Það hækkaði í 17 krónur skömmu seinna og þótti nóg um. Frá þessum tíma hefur almennt verðlag hækkað um 80% sé notast við vísitölu neysluverðs. Fargjaldið í strætó hefur hækkað um ca. 1.766% eða u.þ.b. átjánfaldast. Svo eru allir rosalega hissa á að enginn fari í strætó...


mbl.is Farþegum strætisvagna á Akureyri stórfjölgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsleikur allra tíma

Þessi handboltaleikur í gær var náttúrulega bara ótrúlegur - aldrei séð annað eins. Koma út úr leiknum við Úkraínu með lélegan leik og óþægilegt tap á bakinu og taka svo núverandi Evrópumeistara í kennslustund í handbolta. Maður getur aftur verið stoltur af því að vera Íslendingur, amk svona frá handboltasjónarmiði.

En þetta var víst bara fyrsta skrefið af þremur - að komast úr milliriðlunum verður auðvitað hægara sagt en gert þrátt fyrir að leikurinn í gær gefi fögur fyrirheit. Nú er bara að vona að menn láti þetta ekki stíga sér til höfuðs eða slaki á. Reyndar líklega lítil hætta á því með Alfreð Gísla við stjórnvölinn. Hann virðist hafa undraverða hæfileika til þess að mótívera menn eftir ljótt tap.

Áfram Ísland!!!


Deiglupistill til stuðnings

Mátti til með að taka einn pistil á Deigluna um það sem er að gerast í Frjálslynda flokknum svona til þess að koma aðeins á framfæri mínum skoðunum á því máli. Aðallega þó er pistillinn auðvitað til þess að lýsa yfir stuðningi við Margréti í formannsembættið eða þá varaformanninn ef hún kýs það frekar. Ég þekki hana af góðu einu, hún hefur staðið sig vel fyrir flokkinn frá upphafi og er best til þess fallin að vera í forystu þarna.

Ég er að sjálfsögðu ekki að slá þessu fram sem almennum sanndindum heldur er þetta mín skoðun - lái mér hver sem vill...

http://www.deiglan.com/index.php?itemid=10763


Já sko

Það gekk svoleiðis bara eins og í lygasögu að stofna svona blog.is blogg. Kannski að þetta verði bara vettvangur skoðanatroðnings framtíðarinnar. Amk margt að segja á þessum síðustu og verstu...eins gott að hafa stað til þess að koma sínu á framfæri ;)

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband