Af hverju er ríkisvaldið ekki á hybrid?

Fínt framtak hjá ríkisstjórninni að hleypa af stokkunum svona umhverfisvænu verkefni (www.kolvidur.is) korteri fyrir kosningar. Veitir ekkert af því gróðursetja eins mörg tré og mögulegt er. Svo er besta fyrirtæki Íslands með í verkefninu sem er auðvitað ekki verra.

En ég velti því stundum fyrir mér hvers vegna menn ganga ekki alla leið og gera hlutina almennilega. Tökum ríkisvaldið sem dæmi. Bílafloti ríkisins hlýtur að vera nokkuð stór og líklega eru fáir þeirra bíla sérstaklega umhverfisvænari en aðrir.

Það er eitt að gróðursetja tré eða setja reglur um útblástur verksmiðja en allt annað að sýna frumkvæði í verki. Það eru bílarnir í landinu sem menga langmest. Ríkið ætti því að taka næstu ár í að endurnýja bílaflota sinn með það að markmiði að allir bílar ríkisins verði umhverfisvænni "hybrid" bílar (bensín/rafmagn) innan fárra ára.

Efasemdarfólki finnst þetta líklega óraunhæft og að líklega mætti gera annað við peningana, en þetta er eina vitið. Það eru fá ríki sem standa jafnvel og okkar eigið og því hægur vandi að fjármagna verkefnið. Meira að segja ráðherrarnir sem "þurfa" að vera á bílum sem kosta minnst sjö milljónir geta fengið sé Lexus RX400h eða GS450h. Einnig eru fjölmargar tegundir hybrid bíla á leiðinni (www.hybridcars.com) svo úrvalið verður nóg.

Í framhaldi af þessu framtaki ætti svo ríkið að færa skatta og tolla á hybrid bílum til þess að gefa almenningi tækifæri á að eignast þessa bíla án þess að þurfa að fara í mikil aukaútgjöld. Reyndar hef ég þá almennu skoðun að tolllar á bílum á Íslandi séu fáránlegir og þá ætti að afnema með öllu, en líklega væri þetta ágætis byrjun.


mbl.is Umhverfisverkefninu Kolviði hleypt af stokkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær Íslandshreyfing

Datt inn í Silfrið í gærdag - líklega bara í annað skiptið á ævinni. Það er þó varla í frásögur færandi nema vegna þess að þar voru fulltrúar fjögurra stjórnmálaflokka í spjalli - D, S, V og Í. Vantaði næstum einhvern frá Framsóknarflokknum en sá fámenni hópur fólks getur þó samt varla kallast stjórnmálaflokkur.

En af þættinum að segja þá skaraði Ágúst Ólafur frá Samfylkingunni tvímælalaust framúr af viðmælendunum, enda afar frambærilegur stjórnmálamaður þar á ferð. Hann er einn af hópi fárra stjórnmálamanna sem hafa raunverulega eitthvað í það að vera á þingi. Hann hefur menntunina og þekkinguna, kann vel að koma fyrir sig orði og kemur vel fyrir.

Fulltrúi Íslandshreyfingarinnar, Ósk Vilhjálmsdóttir, kom einnig mjög vel fyrir og kynnti hinn nýstofnaða flokk ágætlega ásamt því að standa fyrir máli sínu varðandi ýmis málefni. Mér þykir stefna hins nýja flokks afar skynsamleg að flestu leyti - loksins kominn raunhæfur valkostur við Sjálfstæðisflokkinn.

Íslandshreyfingin virðist ætla taka öll 'góðu' málin sem flestir geta verið sammála um og setja þau í stefnuskrá sína. Velferðarmálin, umhverfismálin að sjálfsögðu og flokkurinn virðist meira að segja hafa ábyrgar skoðanir á efnahagsmálum. Það verður í það minnsta afskaplega fróðlegt og forvitnilegt að fylgjast með þessu framboði og kynna sér stefnu þeirra til hlítar.

Í raun þarf alls ekki að koma á óvart að þetta framboð fái þessi 5% í skoðanakönnun nú þegar. Þetta er nýtt og spennandi og hljómar eins og áhugaverður valkostur, öfugt við flest önnur smáframboð sem koma fram í aðdraganda kosninga. Ekki spillir að Margrét Sverrisdóttir er þarna í forystu og hún gerði greinilega hárrétt að segja skilið við Frjálslynda flokkinn.

En, afar hressandi Silfur til að byrja með - svo mætti hinn Frjálslyndi Jón Magnússon og þá slökkti ég.


Tvöföldun má ekki bíða

Mannslíf verða ekki metin til fjár og í aðstæðum eins og á suðurlandsvegi, þar sem hægt er að koma í veg fyrir nánast öll slys með tvöföldum vegi á ekkert að vera að ræða málin. Suðurlandsveg á að tvöfalda strax, án þess að velta fyrir sér kostnaði, "þensluáhrifum" eða öðrum kostum en tvöföldum vegi með bili á milli akstursstefna.

Það er skömm að því að ekki hafi þegar verið hafist handa á þessu verki nú þegar. Þrátt fyrir að þetta sé mikil framkvæmd og vegum hins opinbera, þá þarf ekki alltaf að taka óratíma í að taka ákvörðun, koma framkvæmdum af stað og vinna verkið. Það er jafnframt ótrúlegt að einhver umræða skuli hafa verið um hvort þetta eigi að vera 2+1 vegur eða 2+2.

Það kemur ekkert annað til greina en 2+2. Ég veit að það er dýrara, en eins og áður segir verða mannslíf ekki metin til fjár og þegar um er að svo stóra framkvæmd á annað borð, er eins gott að gera þetta almennilega.

Slysið í gær var hræðilegt og ég votta aðstandendum samúð. Vonum að ríkisvaldið sjái nú sóma sinn í því að ganga í þessa framkvæmd strax.


mbl.is Kona lést í umferðarslysi á Suðurlandsvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyldi engan undra

Kennarar mótmæla og ekki veitir af. Ég er alltaf tilbúinn til þess að styðja kjarabaráttu þeirra sé hún háð af skynsemi eins og jafnan er raunin. Kennarastarfið er líklega eitt hið vanmetnasta á Íslandi á öllum skólastigum en skiptir þó gríðarlegu máli þegar öllu er á botninn hvolft.

Menntun í þjóðfélaginu er grundvöllur hagvaxtar og almennra framfara og nánast má segja að aldrei sé of miklu fé varið til þessara málefna. Launakjör kennara eru til skammar og hafa verið það frá því ég man eftir mér og þetta á við um grunn-, framhalds- og háskólakennara. Þetta eru ólíkir hópar með ólíka hagsmuni en allir skipta miklu máli í menntun fólks á mismunandi stigum.

Stjórnvöld eiga að geta séð sóma sinn í því að búa vel að kennurum hvort sem þeir mennta börn, unglinga eða fullorðið fólk. Allir eiga að hafa aðgang að menntun á öllu stigum án þess að þurfa að greiða fyrir það háar fjárhæðir. Með þessu orðum er ég þó ekki að andmæla einkaskólum því þeir eru sannarlega af hinu góða. Stjórnvöld verða þó að gefa öllum sem vilja kost á því að stunda nám.

Reyndar hef ég líka þá skoðun að ríkið eigi að sjá öllum fyrir heilbrigðisþjónustu sem rekin er sómasamlega fyrir skattfé og Landspítalinn á ekki að þurfa að líða það fjársvelti sem hann gerir í dag - það er þó önnur saga.


mbl.is Kennarar mótmæla launum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf sárt að tapa

Góð frammistaða í Stúdentaráði og frábær kosningabarátta dugði ekki til þess að sannfæra stúdenta um að kjósa Vöku að þessu sinni. Vissulega voru rúmlega 1.600 manns sem veittu Vöku atkvæði sitt, en það dugði ekki til, þó litlu munaði.

Líklega rétt að óska Röskvu til hamingju með sigurinn - tók ekki nema 5 ár að endurheimta Stúdentaráð frá því við unnum svo eftirminnilega með fjórum atkvæðum árið 2002, árið eftir með tæplega 600 og með um 400 atkvæðum árið 2004. Vaka hefur átt 4 formenn Stúdentaráðs af síðustu fimm og hagsmunabarátta stúdenta var á þessum tíma rifin upp úr þeirri lægð sem hún hafði verið í þar áður frá árinu 1991.

Það var sérlega súrt að upplifa þetta beint í æð, því sá sem þetta ritar eyddi nóttinni í að telja atkvæðin og svaf í tvo tíma. En það þýðir lítið að svekkja sig á þessu, heldur skal horfa björtum augum fram á veginn og bera höfuðið hátt. Vaka stóð sig vel og séu stúdentar ekki sannfærðir er það þeirra vandamál. Röskva fær nú tækifæri til þess að sanna sig og vonandi nýtir hún það, því það eru jú hagsmunir stúdenta sem skipta mestu máli þegar öllu er á botninn hvolft.

Súrt að tapa en svona er víst lífið - you win some, you lose some.

Að lokum, aldrei fara á Hressó aftur - í það minnsta mun ég aldrei stíga fæti þangað inn framar.


mbl.is Röskva hlaut flest atkvæði í kosningum til Stúdentaráðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttaflutningur Stöðvar 2

Í upphafi er rétt að geta þess að ég er almennt ekki mikill áhugamaður um Stöð 2 og hvernig þeir kjósa að flytja fréttir - í svona æsifrétta/skemmtiþáttar stíl hvort sem um er að ræða hryðjuverk, jarðskjálfta í Tyrklandi eða endurnar á tjörninni. Að þessu sögðu þá tók nú fyrst steininn úr í gær, þegar fluttar voru fréttir af misheppnaðri innkomu bankanna á íbúðalánamarkað.

Umrædd frétt birtist undir yfirskriftinni "Húsnæðislán bankanna hækka fasteignaverð" og fjallaði um þá staðreynd að vextir á íbúðalánum væru hærri nú en áður en bankarnir komu inn á þann markað. Þetta er auðvitað hárrétt, en fréttin var hins vegar lögð upp eins og það væri bönkunum að kenna að vextirnir væru hærri nú en áður.

Íbúðalánasjóður ákvarðar vexti sína í útboðum á íbúðabréfum. Vegna aukinnar samkeppni á íbúðalánamarkaðinum hefur sjóðurinn hagað þessum útboðum þannig að hann geti haldið vöxtunum sem lægstum. Innkoma bankanna hefur þannig stuðlað að því að vextir eru lægri en þeir væru ella.

En það versta við sjálfa fréttina var eiginlega viðmælandinn. Þetta er frétt um banka, vexti og íbúðalán og eini viðmælandinn er Ingólfur H. Ingólfsson félagsfræðingur og sjálfmenntaður fjármálaráðgjafi. Hann virðist ekkert vita um þetta mál ef marka má ummæli hans og hefði verið mun eðlilegra og betri fréttamennska að ræða við einhvern hjá Íbúðalánasjóði annars vegar og hins vegar einhvern sem í það minnsta vinnur í banka og jafnvel veit eitthvað um hvað málið snýst.


Vinstristjórn í vor?

Það eru víst kosningar til Alþingis í vor og því vel þess virði að velta framtíðinni fyrir sér. Landslag stjórnmálanna verður líklega allt öðruvísi - Samfylking orðin 20% og Framsóknarflokkurinn ekki lengur til. Aldrei að vita þó hvað menn draga upp úr höttum sínum í kosningabarátunni.

Tilhugsunin um hugsanlega vinstristjórn í vor er sérlega óskemmtileg, svo ekki sé meira sagt. Miðað við hvernig stjórnarandstaðan talar, sérstaklega um ofurlaun tekjuhárra Íslendinga og mikinn hagnað bankanna. Einnig hljóma nýleg orð formanns Samfylkingarinnar ekki vel þegar hún talar um að stefna flokksins sé fyrst og fremst að kæla hagkerfið með frestun allra stórframkvæmda á vegum ríkisins (reyndar ágætis umfjöllun um þessi mál og fleiri í pistli Benedikts Jóhannessonar).

Samfylkingin virðist gera ráð fyrir því að vera í forystu vinstristjórnar og í ljósi þess væri ágætt ef flokkurinn myndi skýra stefnu sína í þessum helstu málaflokkum sem varða framtíð þjóðarinnar. Þarna er auðvitað átt við málefni varðandi evruna og inngöngu í Evrópusambandið. Ég held eiginlega að forysta flokksins skilji ekki alveg um hvað málið, né heldur áttar hún sig á vilja þjóðarinnar og getur því auðvitað ekki tekið ákvörðun.

Líklega yrði vinstristjórn til þess að stóru fyrirtækin sem skila ríkinu gríðarlegum skatttekjum myndu hverfa úr landi. Einnig myndi fólk sem greiðir mikinn fjármagnstekjuskatt flytja eignarhaldsfélög út fyrir landsteinana, í það minnsta ef marka má orð sem fallið hafa um of lágan skatt á fyrirtæki og of lágan fjármagnstekjuskatt. Hvers vegna þarf að amast við þeim einstaklingum sem vinna við eigin fjárfestingar og hafa því ekki skattskyldar tekjur aðrar en fjármagnstekjur?

Gera má ráð fyrir því að skattar myndu hækka, einkum á þá tekjuhæstu og að útgjöld ríkisins myndu aukast til muna sem myndi leiða til halla á ríkissjóði. Slíkur halli kemur hagkerfinu illa á ýmsan hátt og myndu aukin útgjöld ekki vera til þess að kæla hagkerfið, þrátt fyrir að hærra skattar gætu auðveldlega ofkælt það snögglega.

Þetta er eiginlega of langt mál í eina færslu og því líklega tilefni til áframhaldandi skrifa á næstunni.


Solla í undralandi

Get ekki orða bundist. Verð að taka undir orð forsætisráðherra um seinheppni Ingibjargar Sólrúnar í dag. Hún talaði á Alþingi um slæmt ástand í efnahagsmálum, miklar skuldir heimilanna og viðhafði almennar dómsdagsyfirlýsingar. Reyndar er þetta kannski að vissu leyti hlutverk stjórnarandstöðunnar en fyrr má nú aldeilis fjarvera.

Eins og forsætisráðherra sagði talar Ingibjörg svona einmitt þegar Kaupþing, Glitnir og Straumur skila uppgjörum sem sýna fram á mikinn styrk bankanna þrátt fyrir umrótatíma í efnahagslífinu á síðasta ári.

Auk þess talaði Ingibjörg um skuldir heimilanna og að þær hafi aukist um 1000 milljarða frá árinu 1995 - á 12 árum. Mér þætti áhugavert að vita hvort þessar tölur séu leiðréttar fyrir mannfjölda og verðbólgu eða hvort um einfaldar heildartölur sé að ræða. En umfram allt gleymir Ingibjörg því lykilatriði að ekki er hægt að tala um skuldir án þess að tala um eignir. Líklega hefur skuldsetning heimilanna aukist en þó ekki gott að segja hversu mikið.

Aðalatriðið er það að eignir heimilanna hafa aukist gríðarlega á sama tímabili vegna hækkunar fasteignaverðs. Eins og Ingibjörg sagði réttilega er stærstur hluti skuldanna verðtryggður og því mest fasteignalán. Það má því gera ráð fyrir að eignaaukning komi að næstum öllu leyti á móti umræddri skuldaaukningu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ingibjörg Sólrún virðist nokkuð óstyrk á svellinu í umræðu um efnahagsmál, þrátt fyrir mikla og langa reynslu í stjórnmálum. Ég tek því enn undir orð forsætisráðherra, lokaorð hans í ræðustól á þingi í dag, því Solla lifir svo sannarlega í Undralandi.


mbl.is Forsætisráðherra: Íslenskt efnahagskerfi níðsterkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðburðarík helgi

Löng og viðburðarík helgi að baki. Landsþingi Frjálslynda flokksins lauk og þrátt fyrir dyggan stuðning undirritaðs gekk þetta ekki upp hjá Margréti Sverrisdóttur. Flokkurinn stendur að mínu mati veikari eftir, sérstaklega nú þegar hún virðist ætla að segja sig úr honum ásamt helstu stuðningsmönnum sínum innan flokksins. Hún er þó ekki hætt í pólitík og ljóst að þeim flokki sem fær hana í sínar raðir verður akkur í því.

Úr einu í annað - frábært uppgjör Kaupþings í morgun, 85 milljarða hagnaður verður að kallast í lagi, sérstaklega þar sem það er meira en Glitnir og Landsbankinn skiluðu til samans. Þrátt fyrir mikil læti í fjármálalífinu og ætlaða ofhitnun í hagkerfinu er Kaupþing eins og klettur í hafinu og lætur allt sem vind um eyru þjóta. Sannarlega spennandi tímar framundan.


Stór dagur

Landsþing Frjálslynda flokkins í dag. Lítið annað svosem að segja en ég hef sagt áður, bæði hér og á Deiglunni. Ég held að það sé lífsspursmál fyrir flokkinn að Margrét hafi betur gegn Magnúsi Þór í varaformannsslagnum. Ef hún tapar er aldrei að vita hvað gerist, en ef svo færi að hún segði sig úr flokknum myndi hann standa sannarlega óvígur eftir. Ég held að allir í Frjálslynda flokknum átti sig á þessu, sama hvern þeir hyggjast kjósa ef menn skoða málið ofan í kjölinn. Með hagsmuni flokksins efst í huga er Margrét málið.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband