Danir eru smáborgaralegir fávitar

Án þess að vilja vera með alhæfingar, þá er ótrúlegt að dönsk dagblöð séu ennþá bitur vegna velgengni íslensku bankanna. Auðvitað fór allt illa og margir gerðu mistök. Hins vegar gekk íslensku bönkunum afar vel og Kaupþingi best af öllum. Dönsku bankarnir eru margir hverjir gamaldags tréhestar sem voru ekki stilltir inn á það að ná árangri í einu eða neinu.

Hins vegar, þegar kreppan skall á og aðgangur að lánsfé varð svo til enginn, þá var ekki um auðugan garð að gresja fyrir íslensku bankana sem höfðu ekki passað nógu vel uppá baklandið sitt. Þegar á reyndi hafði íslenska ríkið að sjálfsögðu ekki bolmang í að styðja svo gríðarlega stórt bankakerfi, en það hafði til dæmis danska ríkið. Fjöldinn allur af dönskum bönkum, ef ekki allir, hafa fengið stuðning frá danska ríkinu í kreppunni og því einkennilegt að Berlingske skuli kenna hugsunarhættinum um hversu illa fór.

Ég vann hjá Kaupþingi frá 2005 - 2008 og það var algjörlega frábært. Baráttuandi, sigurvilji, dugnaður og gleði réðu ríkjum og ég á bágt með að trúa því að annar eins vinnustaður hafi fundist á Íslandi á þessum tíma. Vissulega gekk margt mjög vel og þá er auðvelt að gleðjast, en það blés líka á móti af og til og við það jókst jafnan þróttur manna og hungur í að ná lengra.

Önnur fyrirtæki - þá sérstaklega danskir bankar - hefðu gert vel að taka sér til fyrirmyndar menninguna innan Kaupþings. Bankinn hefði aldrei náð svona langt ef hennar hefði ekki notið við, en líklega að sama skapi aldrei fallið svona harkalega. En það voru forréttindi að fá að vinna hjá Kaupþingi á þessum árum - vonandi verður aftur til fyrirtæki á Íslandi sem nær svona góðum árangri.


mbl.is Gamalt Kaupþingsmyndskeið vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr öskunni í eldinn

Steingrímur komst á botninn með Icesave málinu, en er nú byrjaður að grafa. Þetta er einhver sú allra heimskulegasta hugmynd sem ég hef heyrt - líklega sem um getur - fyrir utan það að ganga í ESB kannski. Útgjöld upp á 70 - 80 milljónir árlega og þrír til fimm starfsmenn. Á fimm árum ætlar Steingrímur að eyða í þessa algjörlega tilgangslausu stofnun 350 - 400 milljónum, svona rétt á meðan hann sparkar í aldraða og öryrkja og eykur útgjöld allra heimila í landinu.

Eins og áður hefur komið fram hér hélt ég að Steingrímur væri maður með viti - í það minnsta virtist hann vera það meðan hann sat í stjórnarandstöðu. En hann sýnir það nú hvað eftir annað að þar átti hann heima. Ríkisstofnun sem er ætlað að "stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði" er í hrópandi mótsögn við sjálfa sig. Það er einmitt markaðurinn sjálfur sem stuðlar að og býr til samkeppnina.

Steingrímur er greinilega búinn að gleyma hagfræðinni sinni...eða nei bíddu, hann hefur ekkert til að gleyma því hann er með BS próf í jarðfræði og hefur setið á þingi í 30 ár. Í ideal heimi væri síðasti söludagur á þingmönnum og Steingrímur væri þá kominn eins og tvo áratugi fram yfir sinn.


mbl.is Stofna Bankasýslu ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumingja Steingrímur

Það er sorglegt að horfa upp á Steingrím J. Sigfússon, sem ég hélt eitt sinn að væri hugsjónastjórnmálamaður, tala fyrir máli eins og þessu sem hann hefur greinilega enga trú á. Hann hefur ekki einu sinni dug í sér til þess að horfa framan í fréttamenn þegar hann lýsir kostum þessa máls.

Svo fylgir auðvitað alltaf hinn sígildi hræðsluáróður vinstri manna: "...geti menn líka gefið sér tíma til að hugleiða hvaða afleiðingar það hafi ef þetta verði ekki samþykkt." Hverjar eru afleiðingarnar ef við samþykkjum þetta ekki? Það hefur hvergi komið fram heldur hafa þau Jóhanna talað um þetta mál frá upphafi eins og þetta sé eini hugsanlegi kosturinn í stöðunni. Því trúi ég varla - það eru alltaf tveir kostir.

En úr því það kemur hvergi fram hvað gerist ef við samþykkjum þetta ekki, þá má auðvitað ætla að Samfylkingin telji það skaða stöðu okkar gagnvart ESB ef við borgum ekki, sem er líklega rétt hjá þeim en væri þá að sama skapi frábært að mínu viti. Aðstæðurnar í ESB eru engu betri en hér, sérstaklega ef við tökum þá afstöðu að greiða ekki Icesave.

Ef við sleppum Icesave greiðslunni þá leysum við bara í rólegheitum úr okkar málum hér heima og komum okkur á réttan kjöl eins fljótt og hægt er. Ef við göngumst undir þennan samning, þá verður upprisan mun hægari og von á öðru efnahagshruni hér eftir 7 ár.

Gerandi ráð fyrir að þessi stjórn falli fyrr en síðar, þá kemst hún kannski til valda aftur í þeirri efnahagskreppu.


mbl.is Sjálfstæðismenn til bjargar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskandi að satt væri

Í gær sagði forsætisráðherra að vandi ríkis og sveitarfélaga væri meiri en áætlað var. Í dag er vandi heimilanna minni en áætlað var. Einmitt. Gæti verið að forsætisráðherra sé að finna sér afsökun fyrir því að hækka skatta eða leggja á annan hátt þyngri byrðar á heimilin?

Hvað þýðir það líka að skuldavandi heimilanna sé ekki eins skelfilegur og margir hafi viljað láta í veðri vaka. Þetta er ekki að neinu leyti ásættanlegt orðalag af hálfu forsætisráðherra því þarna er án efa um að ræða heildartölur um eignir vs. skuldir.

Slíkar heildartölur eru fjarri því að segja alla söguna því tekjur og gjöld heimilanna hafa breyst svo um munar. Mikil verðbólga, seinkun launahækkana og aukið atvinnuleysi ásamt hærri afborgunum skulda vegna verðbólgu eða bágrar stöðu krónunnar eru ástæður þess að heimilin ráða við mun lægri skuldir en áður.

Forsætisráðherra hefur því engar forsendur til þess að meta heildarstöðu heimilanna út frá skuldunum einum, því þar þyrfti að koma til mat á tekjum og gjöldum og það er alveg ljóst að heimilin hafa mun minna milli handanna til þess að greiða af fasteignalánum en fyrir hrun.


mbl.is Skuldavandinn minni en talið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drulla í stað ríkisstjórnar?

OK, fyrirsögnin er ekki málefnaleg, en í alvöru talað. Ég vissi svosem að 'skjaldborg um heimilin' væri lítið annað en lélegt slagorð, sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur ekkert gert í málefnum heimilanna annað en sjálfsagða hluti. En að hækka útgjöld heimilanna, þannig að kostnaður þeirra aukist ekki bara beint heldur hefur þetta líka þau áhrif að fasteignalán hækka er algjörlega ótrúlegt.

Það er magnað að fjárlagahallinn sé það sem er efst í huga ríkisstjórnarinnar þegar fyrirtæki fara á hausinn unnvörpum, atvinnuleysi eykst og vandi heimilanna verður sífellt meiri. Það þarf að þora að stíga stærri skref en þessi ríkisstjórn getur. Hún virðist ekki þora að hrófla við neinu á drastískan hátt.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði í gær í skýrslu að stýrivextir yrðu að vera háir áfram. Einmitt. Það þýðir að fleiri fyrirtæki fara á hausinn, það verður áfram dýrt að skulda yfirdrátt og önnur styttri óverðtryggð lán og ríkisstjórnin ætlar greinilega bara að segja já og amen.

Þetta var ríkisstjórnin sem átti að bjarga öllu. Þúsundir manna hópuðust á Austurvöll til að koma Sjálfstæðisflokknum frá og Samfylkingin er stærsti stjórnmálaflokkurinn. Samfylkingin heldur að ESB sé svarið, en þar er allt í molum líka og við erum eina landið í heiminum sem vill gjarnan fá  að taka þátt í því rugli.

Hvenær byrja mótmælin á Austurvelli aftur?


mbl.is Ný gjöld hækka tíu milljóna króna lán um 50 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirspurn á Alþingi

Var að horfa á smá Alþingisklippu þar sem Unnur Brá Konráðsdóttir spurði 'hæstvirtan' umhverfisráðherra um merkilegt mál varðandi ræktun á byggi. Skemmst frá því að segja að átti ráðherra engin svör og var (sem fyrr og líklega síðar) sínum flokki og ríkisstjórninni til skammar.

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20090529T104516&horfa=1

Og fyrst maður er byrjaður á annað borð. Hvað er ríkisstjórnin að gera. Eina sem hún hefur afgerandi gert er að hækka álögur á bíla, bensín, áfengi og tóbak. Maður bíður svo spenntur eftir sykurskattinum. Ríkið blés töluvert mikið út í bólunni okkar eins og allir hinir, væri ekki nær að byrja á því að minnka örlítið þar áður en farið er að leggja auknar álögur á skattgreiðendur.

Reyndar fínt að hækka álögur á bíla og tóbak - okkur vantar enga nýja bíla og tóbak drepur (afsakið sleggjudóminn) en væri ekki nær að þessi blessaði vinstrigræni flokkur myndi fella niður innflutningsgjöld á umhverfisvæna hybrid bíla. Selja svo bílaflota ríkisins eins og hann leggur sig í rólegheitum og breyta honum í umhverfisvæna bíla. Hvað ætli ríkið eyði miklu á ári í bensín?


Lækka meira og afnema verðtryggingu

Gaman að Seðlabankinn skuli lækki vexti, en sem fyrr er þetta of seint og of hægt. Fyrsta skrefið í að bjarga landanum, hvort sem á við fyrirtæki eða heimili, er að lækka vexti miklu meira og afnema verðtryggingu. Þetta skref er hægt að stíga strax en auðvitað þorir enginn og allra síst núverandi ríkisstjórn að láta slag standa.

Við erum eina siðmenntaða þjóðin sem verðtryggir skuldir og það er fráleitt vegna þess að tekjurnar og eignirnar sem við eigum iðulega á móti skuldunum eru ekki verðtryggðar. Flestar þjóðir geta 'verðbólgað' sig út úr skuldum: Yfir tíma hækka laun og verðlag, en skuldir standa í stað.

Á móti kemur áhættan að peningalegar eignir (lesist lífeyrissparnaður) 'brenni upp' yfir tíma, en þá þarf einfaldlega að gera þá kröfu til lífeyrissjóðanna að þeir ávaxti fé sitt á annan hátt, ráði til þess hæfara starfsfólk og lækki rekstrarkostnað sinn með sameiningum. Það er skrýtið að það þurfi marga lífeyrissjóði  og mörg stéttarfélög í landi þar sem búa 300.000 manns, þegar erlend stórfyrirtæki á borð við Wal-Mart eru með 2.000.000 starfsmanna sem allir greiða í sama lífeyrissjóð og eru í sama stéttarfélagi.

Einhvern tímann heyrði ég setninguna desperate times call for desperate measures. Hún á við að tímum sem þeim sem við stöndum nú frammi fyrir þarf að taka stór skref til þess að koma hlutum í lag. Stærri skref en núverandi ríkisstjórn þorir að taka. Því miður held ég að ríkisstjórnin muni alls ekki þora að taka stórar ákvarðanir, heldur bara reyna að smálaga og bæta - sem jafngildir því að setja plástra á slagæðablæðingu.

Það þarf djarfar hugmyndir sem gang langt og myndu ekki koma til tals nema á krísutímum. Stjórnmálamenn eins og Jóhanna Sig. og Steingrímur J. sem setið hafa á Alþingi í 30 ár munu aldrei sýna neitt slíkt - þau hafa bara ekki það sem þarf.


mbl.is Umtalsverð vaxtalækkun í júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti leikur allra tíma

Ég bar gæfu til þess í gærkvöldi að verða vitni að þessum stórkostlega leik í DHL höllinni í gær. Ég held að annað eins hafi varla nokkurn tímann sést í íþróttum á Íslandi. Fjórar framlengingar, flautukörfur, villur, þreyta, 50 stig frá einum leikmanni, hræðileg dómgæsla, geðveiki.

Spennan í húsinu var gríðarleg frá fyrstu mínútu, Keflvíkingar betri framan en svo kom KR seiglan og þetta fór í framlengingu, eina á eftir annarri. Frábær leikur hjá báðum liðum, frábær skemmtun og stórkostlegur sigur KR. Dómgæslan var slök að vanda, en maður er nánast hættur að kippa sér upp við það. Fæstir dómarar í deildinni eiga séns í að dæma bolta sem er spilaður á svona háu standard og KSÍ þarf að skoða hvað á að gera til þess að hjálpa dómörunum við að halda í við körfuboltann.

Áfram KR!


mbl.is KR sigraði eftir fjórar framlengingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vangæf Vinnumálastofnun

Ég varð fyrir því óláni að þurfa að eiga samskipti við Vinnumálastofnun um daginn og ég vona að það gerist aldrei aftur. Ekki vegna þess að ég var atvinnulaus - var það í þrjá mánuði og það var ekki eins slæmt og ég bjóst við. Það sem helst skyggði á þann tíma var Vinnumálastofnun - sem ég hafði í einfeldni minni haldið að yrði stoð mín og stytta í atvinnuleysinu.

Í fyrsta lagi mátti ég náttúrulega ekki koma nálægt þeim, varla hringja, fyrr en ég var búinn að fá síðasta launatékkann á uppsagnarfrestinum í gömlu vinnunni. Það þótti mér ekki skynsamlegt, því þar sem flestir frá greidd laun mánaðarlega þá myndast gríðarlegt álag hjá Vinnumálastofnun um hver mánaðamót. Þeir myndu gera betur með því að dreifa álaginu og sömuleiðis ætti maður að geta sótt um hvenær sem maður vildi en tiltaka einfaldlega þann dag sem bætur ættu að taka gildi.

Ferlið við að komast á skrá hjá Vinnumálastofnun og sækja um bætur er frekar einfalt. Maður fyllir út eyðublað í nokkrum skrefum á netinu og skilar fylgiskjölum. Og já alveg rétt, þeir minnast reyndar ekki sérstaklega á það í ferlinu en eina leiðin til þess að gera umsóknina á netinu löglega er að mæta á svæðið og fylla út og skrifa undir skjal þess efnis að maður sé atvinnulaus. Á pappír. Sem maður var að gera á netinu. Hvað verður um skjalið? "Það fer hérna í möppu." Já einmitt. Velkomin á 21. öldina.

Í þriðja lagi þurfa allir sem sækja um bætur að staðfesta atvinnuleit mánaðarlega, sem er sniðugt. Enginn ætti að vera áskrifandi að bótunum án smá erfiðis í hverjum mánuði. Svo þurfa allir að sækja einn fund - það er skylda. Það er ekki hægt að fá atvinnuleysisbætur án þess að sækja þennan fund. Ég var í Vinnumálastofnun í byrjun mars - næsti fundur? 23. maí. Einmitt, takk fyrir það. Ég ligg þá bara í rúminu fram að því.

Fjórði punkturinn - vá þetta er meira en ég hélt - er sá að opnunartími Vinnumálastofnunar er frá 9 - 15, mánudaga til fimmtudaga og frá 9 - 12 á föstudögum. Hvað er starfsfólk Vinnumálastofnunar að gera restina af tímanum sem venjulegt fólk er í vinnunni? Aftur, væri ekki betra að dreifa álaginu til þess að bæta þjónustuna. OK, ekki hafa opið nema í 27 tíma á viku, en hvernig væri að svara í símann frá 8 - 18 til dæmis. Það hafa aldrei verið fleiri atvinnulausir í Íslandssögunni og það datt engum í hug lengja jafnvel opnunartíma Vinnumálastofnunar tímabundið. Nei ég skil það vel, þetta er bara atvinnulaust fólk sem hefur ekkert annað að gera en bíða í símanum eða á skrifstofu Vinnumálastofnunar. Einmitt.

Síðast en ekki síst hringdi ég og vildi fá skjal til að staðfesta atvinnuleit mína svo ég gæti farið með það til Lýsingar og fengið að greiða bara vexti af bílaláninu mínu. "Já, þú þarft að koma hérna niður eftir og sækja það." Já ok, ekki hægt að senda á faxi? Nei, það er ekki gert þannig. Já auðvitað, það er ekki nema árið 2009, allir með rafrænt auðkenni gegnum netbanka og það er ekki eins og ég væri að biðja um eitthvað flippað eins og að fá skjalið sent í tölvupósti. Ég hélt að Vinnumálastofnun myndi ráða við faxið. Nei, það er ekki gert þannig.

Með textanum hér að ofan er ekki ætlað að henda gaman að atvinnuleysi, atvinnulausum eða kasta rýrð á mikilvægi atvinnuleysisbóta - þær mættu meira að segja vera hærri. Jafnframt, held ég að Vinnumálastofnun mætti vera betri.


Landið er ekki sokkið í sæ

Mér varð hugsað til þess þegar bankarnir rúlluðu í haust og menn héldu að allt væri að fara til andskotans. Þá sendi félagi minn á mig þessar línur efti T. S. Eliot:

This is the way the world ends
This is the way the world ends
This is the way the world ends
Not with a bang but a whimper.

Skemmtilegt til þess að hugsa að þrátt fyrir að manni hafi þótt þetta viðeigandi um miðjan október síðastliðinn, þá gengur lífið enn sinn vanagang og blessuð kreppan líður hjá í rólegheitum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband